Námskrárgrunnur: namskra.is

Staðfestar námsbrautalýsingar

Handbók við gerð áfangalýsinga og námsbrautalýsinga fyrir framhaldsskóla

Aðalnámskrá framhaldsskóla 2011, kafli 10: Námsbrautalýsingar

Áður en skóli getur hafið vinnu í grunninum þarf að stofna hann í námskrárgrunninum og skal beiðni send á netfangið: steingrimur.a.jonsson -hja- mms.is.

Forstöðumaður þarf að búa sér til aðgang og síðan er hægt að tengja hann við skólann og einnig notendur þegar þeir hafa stofnað sér aðgang. Sérhver notandi býr til sinn eiginn aðgang. Það er gert af upphafsíðu vefsins: namskra.is, með því að smella á Innskráning og velja þar Skráning sem nýr notandi. Skilgreindur forstöðumaður skólans í námskrárgrunninum tengir notendur við skólann og gefur þeim réttindi. Til þess þarf forstöðumaður að hafa notendanafn viðkomandi. Nánari lýsing á ferlinu og á  mismunandi réttindum í grunninum er að finna í Handbók námskrárgrunns, sjá tengil hér að ofan.

Forstöðumenn og þeir sem vinna við að setja inn í grunninn geta leitað eftir aðstoð hjá Menntamálastofnun: Steingrímur A Jónsson: steingrimur.a.jonsson -hja- mms.is eða Þóra Þórðardóttir: thora.thordardottir -hja- mms.is

Mælt er með góðum undirbúningi áður en hafist er handa við að setja áfangalýsingar og brautir í námskrárgrunninn. Í fyrsta lagi þurfa námslok að vera ákveðin. Nöfn brauta þarf að vera búið að ákveða og mælt með að skólar hafi tilbúna prófarkalesna texta fyrir áfangalýsingar, hæfniviðmið brauta og lykilhæfni og grunnþætti. Þannig sparast mikill tími sem annars færi í uppfærslur því námskrárgrunnurinn er nokkuð hægur eins og fram hefur komið. Þegar búið er að samþykkja áfangalýsingu er ekki hægt að eyða henni eða breyta, nema með því að taka afrit/nota sem grunn. Varðandi áfangalýsingar þurfa þær að vera komnar inn í grunninn og tengdar við braut áður en hægt er að senda hana til ráðuneytis í staðfestingarferli.

Gert er ráð fyrir að hver braut samanstandi af a.m.k. kjarna og/eða brautarkjarna, síðan er hægt að bæta við séráföngum brautar, bundnu áfangavali, bundnu pakkavali, frjálsu vali o.fl. Í bundnu vali skal leitast við að velja saman áfanga með svipað vægi t.d. hvað varðar sérhæfingu brautar og þrepaskiptingu náms. Mikilvægt er að skipuleggja braut þannig nemendur fái heildarsýn á uppbyggingu námsins og að skylduáföngum og vali sé stillt upp þannig að það sé leiðbeinandi og hjálpi til við að staðsetja námsval á hæfniþrep.

Þegar skóli hefur samþykkt námsbraut er hún send í staðfestingarferli með því að smella á hnappinn „Senda til staðfestingar í ráðuneyti“ sem er neðst í brautarlýsingunni. Athugið að þessi hnappur sést ekki í vinnuhamnum. Námskrárstjóri í skólanum samþykkir brautina en forstöðumaður skóla (skólameistari) er sá eini sem hefur heimild í kerfinu til að senda braut til staðfestingar. Braut er hafnað af ráðuneytinu ef einhverra úrbóta er þörf hversu smávægilegar sem þær eru. Skólinn þarf að bregðast við athugasemdum og sendir braut síðan aftur í staðfestingarferli. Samþykkt braut bíður síðan birtingar í Stjórnartíðindum en fyrr telst hún ekki hluti af aðalnámskrá framhaldsskóla . Tengill er opnaður af vef ráðuneytisins um leið og samþykkt námsbraut liggur fyrir.

Birt í Námskrárvinna | Slökkt á athugasemdum við Námskrárgrunnur: namskra.is

Nýjar aðalnámskrár

Í framhaldi af setningu nýrra laga árið 2008 um leikskóla, nr. 90/2008, grunnskóla, nr. 91/2008 og framhaldsskóla, nr. 92/2008 hefur mennta- og menningarmálaráðuneyti unnið að innleiðingu þeirrar menntastefnu sem þar er mörkuð. Undirstaða þeirrar vinnu er útgáfa nýrra aðalnámskráa fyrir skólastigin þrjú sem hafa nú verið staðfestar af ráðherra og birtar með auglýsingu í Stjórnartíðindum.

Í aðalnámskrám eru skilgreindir sex grunnþættir í menntun sem eiga sér stoð, hver með sínum hætti, í löggjöf fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Grunnþættirnir snúast um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru, einnig um framtíðarsýn, getu og vilja til að hafa áhrif og taka virkan þátt í að viðhalda samfélagi sínu, breyta því og þróa.  Þeim er ætlað að undirstrika meginatriði í almennri menntun og stuðla að meiri samfellu í öllu skólastarfi. Grunnþættir í menntun eru: Læsi í víðum skilningi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun.

Grunnþættirnir eru skilgreindir í sameiginlegum inngangskafla í aðalnámskrá leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Þeir tengjast öllum námsgreinum og námsbrautum og eru leiðarljós í almennri menntun og starfsháttum.

Aðalnámskrá leikskóla lýsir sameiginlegum markmiðum og kröfum sem eiga við um öll börn, kennara og stjórnendur leikskóla og annað starfsfólk, fræðsluyfirvöld í viðkomandi sveitarfélagi og rekstraraðila. Hún er jafnframt viðmið fyrir mat á skólum og skólastarfi, leiðarljós fyrir þá sem fást við námsgagnagerð og kennaramenntun, grundvöllur skólanámskrárgerðar og innra mats skóla og stefnumörkunar sveitarfélaga. Aðalnámskrá veitir einnig foreldrum upplýsingar svo að þeir geti fylgst með starfsháttum skólans, árangri skólastarfs og velferð og líðan nemenda.
Aðalnámskrá leikskóla

Aðalnámskrá grunnskóla lýsir sameiginlegum markmiðum og kröfum sem eiga við um alla nemendur, kennara og stjórnendur skólans og annað starfsfólk. Hún er jafnframt viðmiðun við samræmt námsmat í grunnskólum, mat á skólum og skólastarfi, leiðarljós fyrir þá sem fást við námsefnisgerð og kennaramenntun, grundvöllur skólanámskrárgerðar og sjálfsmats skóla og stefnumörkunar sveitarfélaga. Aðalnámskrá er einnig upplýsing og viðmiðun fyrir foreldra svo að þeir geti fylgst með starfsháttum skólans, árangri skólastarfs, velferð og líðan nemenda. Aðalnámskrá veitir einnig nemendum margháttaðar upplýsingar um skólastarf.
Aðalnámskrá grunnskóla

Almennur hluti aðalnámskrár framhaldsskóla lýsir sameiginlegum markmiðum og kröfum sem eiga við um alla nemendur, kennara og stjórnendur skóla og annað starfsfólk. Hún er jafnframt viðmið fyrir námsmat á framhaldsskólastigi, mat á skólum og skólastarfi, leiðarljós fyrir þá sem fást við námsefnisgerð og kennaramenntun, grundvöllur skóla­námskrárgerðar og innra mats skóla. Aðalnámskrá veitir einnig foreldrum upplýsingar svo að þeir geti fylgst með starfsháttum skólans og árangri skólastarfs.
Aðalnámskrá framhaldsskóla

Birt í Námskrárvinna | Slökkt á athugasemdum við Nýjar aðalnámskrár

Námskrárgrunnur

Um þessar mundir vinnur mennta- og menningarmálaráðuneytið að nýju kerfi sem er ætlað að halda utan um námskrár og gera námskrárvinnu auðveldari. Unnið hefur verið lengi að því að útbúa kerfið, sem hefur gengið undir hinu lýsandi nafni Námskrárgrunnur, er farið að taka á sig mynd.

Námskrárgrunnurinn verður veflægur hugbúnaður, það er öll vinna fer fram í gegnum veraldarvefinn, með samvinnu skóla, ráðuneytis og starfsráða að leiðarljósi. Skólar eiga að geta endurnýtt áfanga og jafnvel brautir sín á milli en jafnframt aðlagað þær að sínu sérframboði. Skólar eiga einnig að geta sótt sínar upplýsingar frá miðlægum stað, í stað þess að halda utan um sömu upplýsingarnar á mörgum stöðum.

Áætluð verklok fyrir fyrstu útgáfu eru í kringum áramótin 2010/2011. Sú útgáfa mun ekki uppfylla þarfir notenda fullkomlega en ætti þó að nýtast öllum þeim sem áhuga hafa á því að nýta sér kerfið til námskrárvinnslu. Unnið er að grunnvirkni fyrstu útgáfunnar um þessar mundir, því næst tekur við viðmótshönnun og loks útlitshönnun. Mennta- og menningarmálaráðuneytið mun kalla eftir aðstoð frá skólum á mismunandi stigum þróunarinnar.

Birt í Námskrárgrunnur | Merkt , , , , | Slökkt á athugasemdum við Námskrárgrunnur

Námskrárgerð mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Velkomin á þessa nýju síðu, námskrá.is þar sem haldið er utan um vinnu mennta- og menningarmálaráðuneytisins, í samvinnu við skólana, um námskrárgerð í íslenska menntakerfinu.

Á þessari síðu verður að finna hugleiðingar um þróun námskráa, upplýsingar um ákvarðanir, dæmi um lýsingar og skjöl ásamt ýmsu öðru.

Með námskrá.is viljum við færa vinnuna upp á sameiginlegra og líflegra plan.

Birt í Námskrárvinna | Merkt , , | Slökkt á athugasemdum við Námskrárgerð mennta- og menningarmálaráðuneytisins