Nýjar aðalnámskrár

Í framhaldi af setningu nýrra laga árið 2008 um leikskóla, nr. 90/2008, grunnskóla, nr. 91/2008 og framhaldsskóla, nr. 92/2008 hefur mennta- og menningarmálaráðuneyti unnið að innleiðingu þeirrar menntastefnu sem þar er mörkuð. Undirstaða þeirrar vinnu er útgáfa nýrra aðalnámskráa fyrir skólastigin þrjú sem hafa nú verið staðfestar af ráðherra og birtar með auglýsingu í Stjórnartíðindum.

Í aðalnámskrám eru skilgreindir sex grunnþættir í menntun sem eiga sér stoð, hver með sínum hætti, í löggjöf fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Grunnþættirnir snúast um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru, einnig um framtíðarsýn, getu og vilja til að hafa áhrif og taka virkan þátt í að viðhalda samfélagi sínu, breyta því og þróa.  Þeim er ætlað að undirstrika meginatriði í almennri menntun og stuðla að meiri samfellu í öllu skólastarfi. Grunnþættir í menntun eru: Læsi í víðum skilningi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun.

Grunnþættirnir eru skilgreindir í sameiginlegum inngangskafla í aðalnámskrá leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Þeir tengjast öllum námsgreinum og námsbrautum og eru leiðarljós í almennri menntun og starfsháttum.

Aðalnámskrá leikskóla lýsir sameiginlegum markmiðum og kröfum sem eiga við um öll börn, kennara og stjórnendur leikskóla og annað starfsfólk, fræðsluyfirvöld í viðkomandi sveitarfélagi og rekstraraðila. Hún er jafnframt viðmið fyrir mat á skólum og skólastarfi, leiðarljós fyrir þá sem fást við námsgagnagerð og kennaramenntun, grundvöllur skólanámskrárgerðar og innra mats skóla og stefnumörkunar sveitarfélaga. Aðalnámskrá veitir einnig foreldrum upplýsingar svo að þeir geti fylgst með starfsháttum skólans, árangri skólastarfs og velferð og líðan nemenda.
Aðalnámskrá leikskóla

Aðalnámskrá grunnskóla lýsir sameiginlegum markmiðum og kröfum sem eiga við um alla nemendur, kennara og stjórnendur skólans og annað starfsfólk. Hún er jafnframt viðmiðun við samræmt námsmat í grunnskólum, mat á skólum og skólastarfi, leiðarljós fyrir þá sem fást við námsefnisgerð og kennaramenntun, grundvöllur skólanámskrárgerðar og sjálfsmats skóla og stefnumörkunar sveitarfélaga. Aðalnámskrá er einnig upplýsing og viðmiðun fyrir foreldra svo að þeir geti fylgst með starfsháttum skólans, árangri skólastarfs, velferð og líðan nemenda. Aðalnámskrá veitir einnig nemendum margháttaðar upplýsingar um skólastarf.
Aðalnámskrá grunnskóla

Almennur hluti aðalnámskrár framhaldsskóla lýsir sameiginlegum markmiðum og kröfum sem eiga við um alla nemendur, kennara og stjórnendur skóla og annað starfsfólk. Hún er jafnframt viðmið fyrir námsmat á framhaldsskólastigi, mat á skólum og skólastarfi, leiðarljós fyrir þá sem fást við námsefnisgerð og kennaramenntun, grundvöllur skóla­námskrárgerðar og innra mats skóla. Aðalnámskrá veitir einnig foreldrum upplýsingar svo að þeir geti fylgst með starfsháttum skólans og árangri skólastarfs.
Aðalnámskrá framhaldsskóla

Þessi færsla var birt undir Námskrárvinna. Bókamerkja beinan tengil.

Lokað er á athugasemdir.