Áfanganúmer

Í nýja áfanganúmerakerfinu skiptast allir áfangar á framhaldsskólastigi niður á fjögur hæfniþrep, sem kallast 1., 2., 3. og 4. þrep. Þessar breytingar á áfangakerfinu kalla á ný áfanganúmer. Vinnan er gerð samhliða gerð aðalnámskrár og þróun námskrárgrunns en honum er ætlað að halda utan um nýja kerfið.

Áfanganúmer skóla eru 9 stafir í grunninum, t.d. MYND2AB05, auk útgáfunúmers

  • fyrstu fjórir stafirnir (MYND) eru einkennisstafir námsgreina eða faga (í þessu tilfelli Myndmennt).
  • fimmti stafur (2) segir á hvaða hæfniþrepi áfanginn er
  • sjötti og sjöundi stafur (AB) eru einkennisstafir áherslu innan námsgreinar eða fags (Abstrakt listaverk)
  • áttundi og níundi stafur (05) segir til um hversu margar einingar áfanginn er

Útgáfunúmer er hlaupandi tala sem byrjar á 0 en eykst svo með hverri útgáfu. Samsetning útgáfunúmers og áfanganúmers mynda kennitölu áfanga.

Í kennitölu áfanga er útgáfunúmerið aðgreint frá áfanganúmeri með undirstriki. Fimmta útgáfa myndmenntaráfangans myndi hafa kennitöluna: MYND2AB05_4 en tuttugasta útgáfa áfangans myndi hafa kennitöluna: MYND2AB05_19.

Skólar ákveða skammstafanir fyrir námsgrein/fag og áherslur á þann hátt að ef ekki er til ákveðin skammstöfun fyrir námsgrein/fag eða áherslu er höfundi áfanga gefinn kostur á að búa til skammstöfun.

Í námskrárgrunninum verður hægt að fletta upp nákvæmri áfangalýsingu áfanga út frá kennitölu. Hægt verður að byggja ofan á áfanga og námskrárgrunnur heldur utan um þá sögu. Námskrárgrunnur heldur einnig utan um það hvort áfangastjórar hafi metið tvo áfanga sem jafngildisáfanga. Hversu nákvæmt jafngildisáfangamatið verður er háð því hversu virkir áfangastjórar eru að merkja tvo eða fleiri áfanga sem jafngilda áfanga.

Skildu eftir svar