Nemendur með annað móðurmál en íslensku

Nemendur með annað móðurmál en íslensku.

Samantekt á umfjöllun aðalnámskrár grunnskóla varðandi móðurmál og nemendur með annað móðurmál en íslensku, kaflar 16 og 19.

Tungumálið er eitt af mikilvægustu tækjum mannsins til að afla sér þekkingar. Það á ekki einungis við um nemendur í skóla heldur einnig ævinám mannsins. Allir nemendur hafa fengið máluppeldi af einhverju tagi. Flestir eru aldir upp við íslensku, vaxandi hópur hefur annað mál en íslensku að móðurmáli. Þessi margbreytileiki kallar á kennsluhætti þar sem allir fá að njóta sín og miðla þekkingu sinni, reynslu og skapandi hugsun á þann hátt sem hverjum er fær. Mikilvægt er að viðfangsefni höfði til nemenda og miði að því að auka þekkingu þeirra á máli og styrki málnotkun í ræðu og riti og almenna hæfni sem málnotendur. Móðurmál, hvert svo sem það er, er órjúfanlegur hluti persónu, miðill til að afla sér vitneskju, miðla öðrum af þekkingu sinni og taka þátt i samfélaginu. Það er mikilvægt að hafa í huga að nemendur með annað móðurmál en íslensku viðhaldi og rækti eigið móðurmál, en samkvæmt grunnskólalögum er stefnt að virku tvítyngi þessara nemenda.

Traust kunnátta í móðurmáli er meginundirstaða staðgóðrar menntunar. Jafnframt er lestur öflugt tæki nemenda til að afla sér þekkingar og tjáning í ræðu og riti ein af nauðsynlegum forsendum þátttöku í samfélaginu. Börn hefja skólagöngu talandi á móðurmáli sínu, hvort sem um er að ræða á íslensku, íslensku táknmáli eða öðru tungumáli. Skólinn verður í upphafi virkur þátttakandi í máluppeldi barnsins ásamt heimili þess. Sérstök móðurmálskennsla er ekki lögbundin fyrir alla nemendur en æskilegt er að nemendur fái tækifæri til að rækta móðurmál sitt, t.d. sem valgrein eða í fjarnámi.

Færni í notkun tungumáls, bæði móðurmáls og annarra mála, er grundvallaratriði í mannlegum samskiptum.. Með umfjöllun um fjölbreytileika tungumála og tvítyngi má auka skilning nemenda á því hve móðurmálin eru mörg í íslenskum skólum og stuðla þannig að umburðarlyndi. Einnig er sjálfsagt að fjalla um skyldleika norrænu málanna og leyfa nemendum að spreyta sig á því að skilja mælt mál og ritmál annarra norrænna þjóða.

Íslenska sem annað tungumál

Það er mikilvægt viðfangsefni að bæta íslenskukunnáttu þeirra nemenda sem hafa annað mál en íslensku að móðurmáli. Hæfni í íslensku er meginforsenda þess að þeir verði að virkum þátttakendum í samfélagi lýðræðis og jafnréttis og geti lagt stund á almennt nám í íslenskum skólum. Hér er um krefjandi verk að ræða. Uppruni nemendanna er mjög mismunandi. Mál sumra er ef til vill af sömu ætt og íslenska og kunnugt mörgum kennurum, svo sem enska, þýska og norræn mál. Móðurmál þeirra getur orðið góður stuðningur í kennslu og námi þar sem unnt er að útskýra ýmislegt í íslenskunáminu með skírskotun til móðurmáls þeirra. Aðrir nemendur hafa alls óskylt mál að móðurmáli og jafnvel annað leturkerfi. Mörg börn eiga foreldra sem hafa sama móðurmál og barnið en einnig er um það að ræða að ekki hafi báðir foreldrar sama móðurmál og í sumum tilvikum er annað foreldri með íslensku að móðurmáli. Það getur haft áhrif á máluppeldi barnsins og samband heimilis og skóla. Þetta skiptir máli við máltöku nýs máls ásamt stöðu þessara barna í námi, menningarlegan mismun og menntun foreldra. Mikilvægt er í öllum tilvikum að hvetja foreldra til að styðja við íslenskunám barna sinna og jafnframt rækta og þróa eigið móðurmál til að stuðla að virku tvítyngi allra nemenda með annað móðurmál en íslensku.

Ástæða er til að minnast á börn sem hafa íslensku að móðurmáli en hafa dvalið í útlöndum þorra ævinnar. Skólamál þeirra og mál utan heimilis hefur því verið annað en íslenska. Þessir nemendur þurfa oft talsverða aðstoð í skólum þó svo að það sé ekki ljóst í byrjun. Það er mikilvægt fyrir sjálfsmynd nemenda með annað móðurmál en íslensku að tekið sé tillit til þekkingar þeirra og færni í eigin móðurmáli og nauðsynlegt að þeir viðhaldi því. Það er ávinningur fyrir hvern mann að hafa vald á fleiri en einu tungumáli og dýrmætt fyrir þjóðfélagið. Sterkt móðurmál styrkir fjölskyldubönd og tengsl við menningarlega arfleifð. Því er afar mikilvægt að foreldrum sé gerð grein fyrir mikilvægi móðurmálsins fyrir nemandann og þeir hvattir og studdir til að sinna máluppeldi á heimilinu sem felst í að rækta móðurmál hans. Sjálfsagt er að skóli og foreldrar leiti stuðnings hjá þeim sem geta veitt aðstoð, svo sem hjá stofnunum og einstaklingum sem hafa þekkingu á máltöku annars máls og fjölmenningu. Starf af þessu tagi kemur einnig námi í íslensku til góða og stuðlar að virku tvítyngi.

Í grunnskólalögum (16.gr.) er kveðið á um að skólar skuli taka á móti nemendum sem eru að hefja nám sitt hér á landi samkvæmt móttökuáætlun skóla eða sveitarfélags. Móttökuáætlun vegna nemenda með annað móðurmál en íslensku skal taka mið af bakgrunni þeirra, tungumálafærni og færni á öðrum námssviðum. Tryggja skal að þessir nemendur og foreldrar þeirra fái ráðgjöf og aðgang að upplýsingum um grunnskólastarf. Í sömu grein segir að gunnskólum sé heimilt að viðurkenna kunnáttu í móðurmáli nemenda með annað móðurmál en íslensku sem hluta af skyldunámi er komi í stað skyldunáms í erlendu tungumáli. Mikilvægt er að bjóða nemendum kennslu í eigin máli þar sem þeir eiga þess kost að læra um mál, bókmenntir og menningu og fá þjálfun í málnotkun.

Skipulag íslensku sem annars tungumáls á einstökum stigum grunnskóla tekur mið af aldri, þroska og þörfum nemenda. Einnig þarf að hafa í huga reynslu nemenda, menningarlegan bakgrunn og stöðu í námi. Áföngunum er hér skipt niður í stig sem miðast við hæfni í íslensku við lok hvers stigs. Í fyrsta lagi er miðað við byrjendur, svo lengra komna og síðan lengst komna. Nemendur geta verið staddir á ýmsum stigum óháð aldri. Hvað málfræði áhrærir má velja viðmið úr hæfniviðmiðum um málfræði þeirra sem hafa íslensku að móðurmáli.

Mikilvægt er að nemendur með annað mál en íslensku þrói með sér læsi, lestur og ritun, líkt og lagt er til um aðra nemendur. Það er einnig brýnt að þeir fylgi skólafélögum í námi í öðrum greinum skólans og fái til þess nauðsynlegan stuðning. Íslenskunámið, og þar með talið læsi, á að vera samtvinnað námi á öllum námssviðum skólans. Leggja ber áherslu á öflugt samstarf við heimilin um þjálfun í íslensku sem öðru tungumáli á öllum stigum grunnskóla. Þetta er mikilvægt samstarfsverkefni heimila og skóla og fjölskyldan gegnir veigamiklu hlutverki í að skapa virðingu fyrir báðum málunum, styrkja þau og rækta og viðhalda áhuga nemenda á virku tvítyngi.

Viðurkenning náms utan grunnskóla

Skólastjóra grunnskóla er heimilt samkvæmt lögum að viðurkenna nám, sem stundað er utan grunnskóla, sem jafngildi grunnskólanáms eða hæfni sem nemandi býr yfir, allt frá upphafi til loka grunnskóla. Sem dæmi um þetta má nefna að viðurkenna hæfni nemenda með annað móðurmál en íslensku í móðurmáli, hæfni íslenskra nemenda í öðrum erlendum málum í stað ensku og dönsku og nám aðra málaskóla..

Undanþága frá skyldunámi

Samkvæmt grunnskólalögum er skólastjóra heimilt að veita einstökum nemendum undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein ef gild rök mæla með því. Þá er t.d. átt við undanþágu nemenda með annað móðurmál en íslensku frá skyldunámi í dönsku. Þetta á einnig við um unglinga sem lengi hafa verið búsettir erlendis. Æskilegt er að nemendum sé boðið upp á önnur námstækifæri í staðinn, t.d. nám í eigin móðurmáli eða íslensku.

Mikilvægt er að skólinn sýni nærgætni og skilning þegar fjallað er um málefni sem tengjast heimilum. Þetta á sérstaklega við um trúar- og lífsskoðanir. Með hliðsjón af sérstöðu þessara þátta, einkum trúfrelsi, er heimilt að veita einstökum nemendum undanþágu frá ákveðnum þáttum skyldunáms sem tengjast trúar- og lífsskoðunum, að beiðni foreldra, ef gild rök eru fyrir slíkri undanþágu. Grunnskólar skulu leitast við að haga störfum sínum þannig að nemendur þurfi ekki að fá undanþágu frá ákveðnum þáttum skólastarfs vegna trúar- og lífsskoðana sinna.

Hafi nemandi fengið undanþágu frá skyldunámsgrein í grunnskóla er eðlilegt að slík undanþága gildi áfram í sömu námsgreinum í framhaldsskóla.

Leiðbeinandi reglur um verklag grunnskóla vegna beiðni foreldra um undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein, samkvæmt 15. gr. grunnskólalaga:

• Umsókn verður að vera skrifleg. Foreldrar nemandans og skólastjóri verða að staðfesta umsókn. Í umsókn þarf að koma fram nafn, kennitala, heimilisfang og grunnskóli nemandans.

• Rökstuðningur og skýring á ástæðum þarf að koma fram í umsókn eða fylgja með. Skýringar og rök geta komið frá foreldrum, kennurum, sérfræðiþjónustu, sérfræðingum, læknum (læknisvottorð), allt eftir eðli máls.

• Aflað er nánari skýringa ef þess er talin þörf. Leitað er álits sérfræðinga eða annarra aðila ef þurfa þykir. Skólinn getur boðið nemanda annað nám í staðinn en ber ekki skylda til þess ef nemandi hefur fullnægt hæfniskröfum eða talin er ástæða til að draga úr námskröfum.

• Skólastjóri skal skrá umsókn sem sérstakt mál og svara formlega með bréfi.

Lokað er á athugasemdir.