Málþing 2012

Lærum hvert af öðru-virkjum grunnþættina

Málþingið fór fram í Flensborg 31. ágúst. Það var opið skólafólki af öllum skólastigum.

Nú er málþingið yfirstaðið og er almenn ánægja með hvernig til tókst.
Í málstofum fóru fram mikilvægar og gagnlegar umræður. Unnið verður úr niðurstöðum þeirra og þær gerðar aðgengilegar á námskrárvef ráðuneytisins og upplýsingavefjum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands.
Hér má nálgast upptökur af ávarpi ráðherra og inngangserindum: http://www.gaflari.is/index.php/verkefni


Samantekt úr málstofum

Samhliða málþinginu í Flensborg kom fólk saman, hlustaði á fyrirlestrana á netinu og hélt málstofur á Dalvík, Akranesi, Sauðárkróki, Ísafirði og Grindavík. Samantektin er unnin úr niðurstöðum frá öllum þessum málstofum.

Í málstofunum lágu fyrir vinnublöð með skilgreindum spurningum sem flestir málstofustjórar nýttu sér. Eftir þingið sendu málstofustjórar niðurstöður til ráðuneytisins og var unnið úr þeim þar.

Í niðurstöðunum er ekki mikið um útfærðar hugmyndir sem hægt er að nýta beint inn í skólastarfið. Hins vegar kemur fram að þátttakendum lá á hjarta að miðla ólíkri reynslu, vangaveltum og jafnvel áhyggjum af stöðunni í skólunum. Margir lýstu einnig yfir þakklæti með framkvæmdina, fá tækifæri til samræðu og læra hver af öðrum.

Hér eru sameiginlegar niðurstöður úr málstofunum dregnar fram í nokkrum atriðum:


Stefnumótun og stjórnendur

Í málstofunum kom meðal annars fram að skólar þurfi að móta sér stefnu, meta stöðuna og setja sér skýr markmið. Þeir þurfi að skapa grundvöll og aðstæður fyrir grunnþættina í starfsháttum skóla, menningu og öllu skólasamfélaginu. Mikið var rætt um stjórnendur í málstofunum, þeir væru mikilvægar fyrirmyndir í öllu skólastarfi og ættu að sýna gott fordæmi með orðum sínum og gerðum. Skólastjórnendur þurfa að móta stefnu í samvinnu við alla hagsmunaaðila, hvetja til umræðu og vera mikilvægur hlekkur í að opna umræðu á milli skólastiga.


Kennarar

Kennarar verða að vera meðvitaðir um grunnþættina við gerð áætlana og undirbúning kennslu. Þættirnir þurfa aðvera samofnir öllum áætlunum. Einnig er mikilvægt að kennarar vinni út frá þeim styrkleikum sem skólakerfið býr yfir nú þegar. Bent var á að kennarar verði að vera búnir að kynna sér grunnþættina áður en þeir geti miðlað þeim. Símenntun kennara var álitin í ólestri og talað um að ef til vill væri hægt að efla hana í samvinnu við fagfélög kennara -Sóknarfæri er í símenntun kennara


Upplýsingabanki og notkun samfélagsmiðla

Það er nauðsynlegt fyrir skólafólk að finna leiðir til að nýta sér betur þá vinnu sem fer fram í skólum landsins til að miðla þekkingu og reynslu. Það þurfa ekki allir að finna upp hjólið.

Í því sambandi var rætt um rafrænan gagnagrunn eða nota möguleikana sem samfélagsmiðlar bjóða upp á. Skapa rafrænan vettvang þar sem skólafólk getur miðlað reynslu sinni svo sem þróunarverkefnum og óskað eftir upplýsingum.
Hugtökin sjálf

Í flestum málstofunum fóru fram miklar umræður um hugtökin sjálf og hvaða skilning skólafólk leggur í þau. Einnig var rætt um nauðsyn þess að einfalda orðræðuna til þess að nemendur og foreldrar skilji hana betur. Þó kom einnig fram að hugtökin sem slík væru ekki ný af nálinni , nema kannski sjálfbærni, en búið að færa þau í nýjan búning og skólafólk megi ekki gleyma því að unnið hefur verið með þessa þætti áður.

Nokkrir áhersluþættir hvers grunnþáttar:

Jafnrétti: Það var áberandi í málstofunni um jafnrétti að fólk var ekki endilega sammála um hugök og skilgreiningar. Það kom fram að hugsanlega væri búið að þynna hugtakið út og of margir þættir féllu undir það. Aðrir lögðu áherslu á hugtakið fæli margt í sér. Fram kom líka í umræðunni að jafnrétti yrði að vera órjúfanlegur hluti starfshátta og menningu skólanna. Enn fremur var lögð áhersla á nemendaþátttöku t.d að jafnréttisnefnd væri starfandi meðal nemenda og auka þannig hlutdeild nemenda í starfinu.

Sköpun: Fram kom í málstofunum að kannski væri lítil reynsla innan skólanna á að vinna með sköpun. Rætt var um hluti eins og frumkvöðlaprógram, að það væri mikilvægt tæki til sköpunar í skólastarfi. Einnig kom fram í umræðum um sköpun að lögð skyldi áhersla á umhverfið. Talað var um að auka hlutdeild nemenda í verkum sínum og virkja sköpunargleði nemenda og starfsfólks með því að sýna fram á að margar leiðir væru að sömu lausninni.

Heilbrigði og velferð: Hér var sérstaklega talað um að þessum grunnþætti þyrfti að sinna frá upphafi skólagöngu og á heildstæðan hátt. Fram komu hugmyndir um að þemaskipta viðfangsefnum þessa grunnþáttar og skipta niður á ár: Sem dæmi ræða næringu við einn árganginn, hreinlæti við annan osfrv.

Lýðræði og mannréttindi: Eins og í fleiri málstofum var fólk ekki sammála um hugtök og skilgreiningar. Fram kom að lýðræði væri valdshugtak. Rætt var um hvort heppilegt væri að ræða þessi tvö hugtök í sömu andrá en fremur hvort hægt væri að hafa annað án hins. Þá kom fram að þetta hefur verið hluti af námskrá og lögum um skóla í áratugi en samt þekkti fólk þessi hugtök lítið.

Sjálfbærni: Þátttakendur voru sammála um að flétta bæri hugsun um sjálfbærni í allt starf og að vera meðvitaður um að sjálfbærni er ekki þáttur einnar námsgreinar. Þetta kallar á samstarf innan skóla og sveigjanleika í stundatöflu. Eins kom fram áhersla á að auka hlutdeild nemenda og að umfjöllunarefnin tengdust þeirra reynsluheimi.

Læsi: Talað var um að kennarar þyrftu meiri kunnáttu í því hvernig væri hægt að efla læsi í öllum greinum og alls staðar. Lestrastefna ætti að hefjast í leikskólum, læsi ætti heima á öllum skólastigum. Lestur og læsi þarf að efla alla ævi.

Áherslupunktar úr málstofum

Lokað er á athugasemdir.