Hvatningarbréf ráðherra

Kæra skólafólk
Með útgáfu aðalnámskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla er brotið blað í íslensku skólastarfi. Áherslan er færð á nemandann og hæfni hans til að takast á við áskoranir daglegs lífs, starfsumhverfis og næsta skólastigs. Nám í skóla felur ekki einungis í sér aukna þekkingu, leikni og hæfni í mismunandi námsgreinum heldur stuðlar jafnframt að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi. Liður í því er innleiðing grunnþátta sem eru læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið mun í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands halda málþingið: Lærum hvert af öðru – virkjun grunnþáttanna í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði 31. ágúst nk. Erindi og kveikjur í upphafi þings verða send út samtímis á vef og í kjölfarið haldnar málstofur bæði á höfuðborgarsvæðinu og út um land.

Ég vil hvetja skólasamfélög vítt og breitt um landið til þess að nýta þetta tækifæri til að, koma saman og fylgjast með og skipuleggja í kjölfarið eigin málstofur til að ræða þetta þýðingarmikla mál. Jafnframt vil ég minna á mikilvægi þess að nemendur og foreldrar séu virkir aðilar í samræðu um skipan skólastarfs. Þeir sem ekki geta nýtt sér daginn hafa möguleika á að sækja efni ráðstefnunnar á vef þegar betur hentar. Einnig mun ráðuneytið halda utan um niðurstöður málstofa og birta á vef.
   
Katrín Jakobsdóttir

Bréf mennta- og menningarmálaráðherra

Skildu eftir svar