Leiðbeiningar og útskýringar í námskrárgrunni

Eftirfarandi leiðbeiningar og texta er að finna í grunninum og eiga þær að vera leiðandi við vinnuna.

Grunnupplýsingar Meginatriði brautarlýsingar

Leiðbeiningar

Kynning á braut: Stutt lýsing á brautinni, markmiðum hennar, tengslum námsins við atvinnulíf og/eða önnur skólastig og stöðu nemenda að loknu námi.

Inntökuskilyrði: Segja til um kröfur sem nemendur þurfa að uppfylla til að geta verið skráðir á brautina. Þau geta til dæmis varðað einkunnir úr grunnskóla, önnur námslok eða áfanga sem þeir skulu hafa lokið.

Hæfniviðmið: Upptalning á viðmiðum sem endurspegla hæfni nemenda við námslok. Þau skulu vera lýsandi þannig að nemendur viti í upphafi að hverju er stefnt. Lögð er áhersla á að öll svið lykilhæfninnar séu sýnileg í hæfniviðmiðum námsbrauta.

Skrifa skal 10-15 viðmið í beinu framhaldi af setningunni: Að loknu námi skal nemandi hafa hæfni til að…

Sagnorð og orðasambönd sem vísa í hæfni eru t.d. afla, nýta, miðla, rökræða, útskýra, fjalla um, taka þátt, tengja … við, vera virkur, vera ábyrgur, búa yfir, rökstyðja, gera sér grein fyrir, sýna skilning, sýna frumkvæði, gera, leysa af hendi, vinna, meta.

Ef um er að ræða starfsnámsbraut þarf að gæta þess að hæfniviðmið taki mið af skilgreindum hæfnikröfum starfs/starfssviðs.

Ef um er að ræða námsbraut til stúdentsprófs þarf að gæta þess að hæfniviðmið taki mið af skilgreindum hæfnikröfum háskólastigs og/eða fræðasviðs eftir því sem við á.

Ítarlegri upplýsingar   Frekari lýsing á brautinni

Leiðbeiningar

Skipulag: Lýsir sérstökum áherslum námsbrautar. Er námið fyrst og fremst bóklegt, verklegt eða hvort tveggja? Hversu stór hluti náms er í skóla/á vinnustað? Eru einhverjar sérstakar áherslur sem einkenna námið og/eða námsumhverfið svo sem samvinnunám, vinnustofur, verklegt nám, bóklegt nám, starfsþjálfun og vinnustaðanám?

Reglur um námsframvindu: Skýra frá lágmarkseinkunnum, einingafjölda eða öðrum sértækum kröfum sem gerðar eru til nemenda. Þær geta tengst lágmarkseinkunn eða einingafjölda, svo sem til að flytjast á næstu önn, næsta ár, upp um þrep eða standast áfanga. Skrifa þarf reglur um námsframvindu hér þó svo það sé endurtekning á skólareglum.

Námsmat: Almenn umfjöllun um námsmat á brautinni, almennt og/eða sértækt.

Starfsnám: Skipulag, lengd og framkvæmd vinnustaðanáms og/eða starfsþjálfunar.

Í vinnustaðanámi eru alla jafna gerðar meiri kröfur um markvissa, skipulagða fræðslu, leiðsögn og eftirlit en þegar um starfsþjálfun er að ræða.

Í starfsþjálfun er lögð áhersla á að nemendur fái tækifæri til að þjálfa frekar verkþætti og verkferla sem þeir hafa þegar fengið kennslu í.

Fjallað er t.d. um skipulag, lengd og framkvæmd vinnustaðanáms og/eða starfsþjálfunar, hvort og hvernig ferilbók fylgi nemanda og skilgreiningu markmiða/hæfniviðmiða ef við á.

Grunnþættir og lykilhæfni
Hvernig unnið er með grunnþætti og lykilhæfni

Leiðbeiningar

Vinna með grunnþætti og lykilhæfni getur til dæmis miðast við áfanga, námsbraut, skólastarf og nemendur.

Grunnþættir menntunar eiga að endurspeglast í skólastarfi, starfsháttum, skipulagi, þróunaráætlunum og tengslum við samfélag.

Lykilhæfni tengir grunnþættina við markmið um hæfni nemenda að loknu námi. Lykilhæfni er nýtt við skipulagningu námsbrauta, gerð áfangalýsinga og námsmat.

Lýsingar á grunnþáttum:

Skapandi hugsun og hagnýting þekkingar
Felst í að móta ný viðfangsefni og miðla þeim, gera eitthvað nýtt eða öðruvísi en viðkomandi kann eða hefur gert áður. Sköpunarferlið stuðlar að frumkvæði, ígrundun og gagnrýninni hugsun og er því ekki síður mikilvægt en afrakstur verksins.
Nýsköpun og hagnýting þekkingar felur í sér áherslu á að skapa eða búa til eitthvað nýtt sem og endurbæta það sem þegar er til staðar.
Heilbrigði
Felur í sér meðvitund um góða heilsu sem er skilgreind sem líkamlegt, andlegt og félagslegt heilbrigði. Sérhver nemandi þarf að gera sér grein fyrir að hann ber ábyrgð á sjálfum sér og félagslegu umhverfi sínu.
Líkamlegt heilbrigði stuðlar að góðri heilsu og almennri velferð þar sem lögð er rækt við hollar lífsvenjur, hreyfingu og heilbrigða lífshætti.
Andlegt heilbrigði er t.d. ábyrg afstaða til eineltis og annars ofbeldis.
Félagslegt heilbrigði felur í sér jákvæða og heilbrigða samskiptahætti og félagslega virkni.
Jafnrétti
Felur í sér að allir geta þroskast á eigin forsendum, óháð staðháttum og félagslegum aðstæðum.
Markmið jafnréttismenntunar er að skapa öllum tækifæri til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi, jafnframt því að allir séu virkir þátttakendur í að skapa samfélag jafnræðis, jafnréttis og réttlætis.
Menntun til jafnréttis fjallar um hvernig aldur, búseta, fötlun, kyn, kynhneigð, litarháttur, lífsskoðanir, menning, stétt, trúarbrögð, tungumál, ætterni og þjóðerni geta skapað mismunun eða forréttindi í lífi fólks.
Lýðræði og mannréttindi
Fela í sér samábyrgð, meðvitund og virkni um að móta samfélag sitt. Forsenda lýðræðis er samábyrgð, meðvitund og virkni borgaranna sem gerir þá færa um að taka þátt í að móta samfélag sitt og hafa áhrif nær og fjær. Viðhorf, gildismat og siðferði eru ríkir þættir í lýðræðismenntun.
Virkur borgari býr yfir vitund um eigin ábyrgð, lýðræði, gagnrýna hugsun, umburðarlyndi, jafnrétti, mannréttindi og ber virðingu fyrir skoðunum og lífsgildum annarra.
Menntun til sjálfbærni
Felur í sér samspil umhverfis, félagslegra þátta og efnahags í þróun samfélags.
Sjálfbærnimenntun miðar að því að gera fólki kleift að takast á við viðfangsefni sem lúta að samspili umhverfis, félagslegra þátta og efnahags í þróun samfélags.
Í sjálfbærnimenntun er lögð áhersla á skilning á þeim takmörkunum sem vistkerfi jarðar setur manninum, jöfnuð innan og milli kynslóða, skynsamlega nýtingu auðlinda og sanngjarna skiptingu þeirra.
Námshæfni
Felur í sér að þekkja eigin styrk- og veikleika.
Hún felur í sér sjálfsþekkingu, þ.e. að þekkja eigin styrkleika og veikleika og að vera fær um að taka ákvarðanir á þeim grunni. Námhæfni beinist að fróðleiksfýsn, trú á eigin getu og hæfileika til að beita þekkingu sinni, leikni og hæfni í margvíslegum viðfangsefnum á uppbyggilegan hátt. Hún tengist einnig getu til að tengja þekkingu og leikni við frekara nám og störf.
Læsi, tjáning og samskipti á íslensku
Auðveldar virk samskipti í félagslegu, menningarlegu og tæknilegu samhengi á Íslandi.
Læsi á íslensku höfðar til þess að hver einstaklingur hafi hæfni til að skynja og skilja umhverfi sitt og samfélag á gagnrýninn hátt og taka þátt í að móta það. Lestur er öflugasta tæki nemenda til að afla sér þekkingar og tjáning í ræðu og riti er forsenda þátttöku í lýðræðislegu samfélagi. Íslensk tunga og menning tengir saman fortíð þjóðarinnar og nútíð.
Læsi, tjáning og samskipti á erlendum tungumálum
Ein af forsendum þess að geta átt farsæl samskipti við einstaklinga af öðru þjóðerni.
Hún leggur grunn að skilningi, víðsýni og virðingu. Tungumálakunnátta er lykillinn að upplýsingum og gefur aðgengi að faglegu efni á erlendum tungumálum. Hún er ein af forsendum þess að geta átt farsæl samskipti og samvinnu við einstaklinga af öðru þjóðerni.
Læsi, tjáning og samskipti um tölur og upplýsingar
Felur í sér að geta aflað gagna, flokkað, unnið úr, notað og miðlað upplýsingum á gagnrýninn hátt.
Læsi á tölur felur í sér hæfni til að lesa úr, tjá sig um og nýta sér til gagns tölulegar upplýsingar.
Læsi á upplýsingar tekur m.a. til upplýsingatækni þar sem mikilvægt er að allir geti aflað gagna, flokkað, unnið úr, notað og miðlað upplýsingum á gagnrýninn og skapandi hátt.
Læsi á fjölmiðla gerir nemendum kleift að greina upplýsingar ólíkra miðla svo þeir geti sjálfir lagt gagnrýnið mat á þær.

Einingafjöldi    Fjöldi framhaldsskólaeininga sem þarf til að útskrifast af brautinni

Leiðbeiningar

Einingafjöldi á brautinni ræðst af námslokum og hæfniþrepi.

Í aðalnámskrá kemur fram lágmarks- og hámarkseiningafjöldi fyrir hver námslok.

Ein framhaldsskólaeining samsvarar 18-24 klukkustunda vinnu meðalnemanda, þ.e.a.s. þriggja daga vinnu nemanda ef gert er ráð fyrir sex til átta klukkustunda vinnu að meðaltali á dag eftir eðli viðfangsefna og afkastagetu nemenda.

Kjarni    Skylduáfangar brautarinnar

Leiðbeiningar

Skylduáfangar eru settir í kjarna nema val um norræn tungumál (ef um fleiri en eitt er að ræða í skóla) og val milli þriðja tungumáls, samfélagsgreina eða raungreina sem best er að setja í bundið pakkaval.

Hægt er að búa til nýjan kjarna ef tveir eða fleiri kjarnar eru á brautinni, t.d. skólakjarni og brautakjarni.

Áfangalistinn sýnir alla áfanga í námskrárgrunni, sem samþykktir eru og birtir af skólum. Hægt er að skoða áfanga eftir þrepaskiptingu.

Bundið val   Valáfangar og/eða valpakkar brautarinnar

Leiðbeiningar

Í bundnu pakkavali velja nemendur brautarinnar einn eða fleiri pakka sem samanstanda af fyrirfram ákveðnum áföngum. Val nemenda er skilgreint í fjölda pakka.

Áfangaval

Leiðbeiningar

Í bundnu áfangavali velja nemendur brautarinnar einn eða fleiri áfanga úr fyrirfram ákveðnum lista af áföngum. Val nemenda er skilgreint í framhaldsskólaeiningum.

—-

Í bundnu pakkavali velja nemendur brautarinnar einn eða fleiri pakka sem samanstanda af fyrirfram ákveðnum áföngum. Val nemenda er skilgreint í fjölda pakka.

Val um norrænt tungumál (t.d. á stúdentsprófsbrautum) og val á milli þriðja tungumáls, samfélagsgreina eða raungreina (t.d. á öðrum brautum til stúdentsprófs) ætti að vera sett í bundið pakkaval.

—-

Í bundnu áfangavali velja nemendur brautarinnar einn eða fleiri áfanga úr fyrirfram ákveðnum lista af áföngum. Val nemenda er skilgreint í framhaldsskólaeiningum.

Leiðbeiningar

Bundið val getur verið annaðhvort val á milli pakka eða val á milli áfanga. Hver braut getur haft margskonar bundið val, t.d. eitt pakkaval og eitt áfangaval eða tvennskonar áfangaval og svo framvegis.

Í bundnu pakkavali á t.d. félagsfræðibraut væri hægt að velja milli pakka með fjórum áföngum í sálfræði og pakka með fjórum áföngum í félagsfræði.

Í bundnu áfangavali á t.d. íþróttafræðibraut væri hægt að velja 5 einingar úr lista af íþróttaáföngum sem væru samtals 20 einingar.

—–

Frjálst val    Annað óskilgreint nám sem nemendur geta valið eða fengið metið

Leiðbeiningar

Segja þarf til um hvort frjálst val er leyft á brautinni og gefa nánari lýsingu.

Óþarfi er að setja frjálst val þegar nemandi hefur fyllt í einingafjölda brautar með kjarna og bundnu vali.

Frjálst val getur verið opið, t.d. félagsstarf í skólanum, tónlistarnám, íþrótta- og/eða tómstundaiðkun. Það getur líka verið takmarkað við t.d. ákveðin greinasvið svo sem listgreinar, bóklegt nám eða einingar af öðrum brautum.

Nánari lýsing útskýrir frjálsa valið.

Ástæða getur verið til að minna nemendur á að uppfylla kröfur um fjölda eininga á hæfniþrep í vali sínu.

Lokað er á athugasemdir.