Námsleiðir – textalýsingar

Það fyrsta sem þarf að gera þegar byrjað er að setja inn námsbraut í námskrárgrunn er að velja tegund námsleiðar. Allar brautir hafa námslok á ákveðnu þrepi sem tengist námsleið. Undir hverri námsleið eru námslok. Námslok er hugtak sem stendur fyrir t.d. stúdent, húsasmiður, framhaldsskólapróf og marg fleira. Hver námsleið og þar með námslok hafa ákveðið hæfniþrep frá 1 til 3, og 4 í stöku tilfellum þegar nám er komið að mörkum háskóla.

Eftirfarandi leiðbeiningar og texta er að finna í grunninum. Námslok koma ekki fram hér.

Leiðbeiningar

Tegund námsleiðar tengir saman námslok, hæfniþrep og námssvið sem og lýsingu á þekkingu, leikni og hæfni nemenda að námi loknu.
Tegund námsleiðar er valin úr lista yfir námslok.
Gert er ráð fyrir að við skipulag námsbrauta verði að jafnaði að velja námslok sem til eru í grunninum. Ekki verði mynduð ný námslok nema að vel ígrunduðu máli, þarfagreining liggi fyrir og starfsgreinaráð fengið til umsagnar.

Önnur lokapróf á fyrsta þrepi
Nemandi sem lokið hefur námi sem fellur undir önnur lokapróf á 1. hæfniþrepi getur unnið sjálfstætt undir stjórn eða eftirliti yfirmanns. Hann býr yfir almennri þekkingu, leikni og hæfni sem nýtist þar sem ekki er krafist mikillar sérhæfingar. Nemandinn getur skipulagt og forgangsraðað störfum sínum og býr yfir hæfni til að skýra verklag tengdu starfsumhverfi og sérþekkingu. Hann ber virðingu fyrir grundvallarreglum starfsumhverfis.

Framhaldsskólapróf á öðru þrepi
Nemandi með framhaldsskólapróf á 2. hæfniþrepi hefur öðlast hæfni til að tjá skoðanir sínar og skýra verklag tengt skilgreindu sérsviði eða starfsumhverfi á ábyrgan, sjálfstæðan og skýran hátt. Hann getur unnið sjálfstætt undir stjórn yfirmanns. Hann byr yfir grundvallarþekkingu, leikni og hæfni innan sérþekkingar eða starfsvettvangs, getur skipulagt og forgangsraðað störfum sínum, veitt ráðgjöf og leiðbeiningar í samráði við yfirmann. Hann býr yfir ábyrgð gagnvart starfi og starfsumhverfi og getur tengt þekkingu sína og leikni við starfsumhverfi og daglegt líf.

Próf til starfsréttinda á öðru þrepi
Nemandi með starfsnámspróf á 2. hæfniþrepi getur unnið sjálfstætt undir stjórn yfirmanns. Hann byr yfir grundvallarþekkingu, leikni og hæfni innan starfsvettvangs, getur skipulagt og forgangsraðað störfum sínum, veitt ráðgjöf og leiðbeiningar í samráði við yfirmann. Hann ber virðingu fyrir grundvallarreglum starfsumhverfis, býr yfir ábyrgð gagnvart starfi og starfsumhverfi og hæfni til að tjá skoðanir sínar og skýra verklag tengdu starfsumhverfi á ábyrgan, sjálfstæðan og skýran hátt.

Önnur lokapróf á öðru þrepi
Nemandi sem lokið hefur námi sem fellur undir önnur próf á 2. hæfniþrepi getur unnið sjálfstætt undir stjórn yfirmanns. Hann býr yfir grundvallarþekkingu, leikni og hæfni innan starfsvettvangs, listgreinar eða sérþekkingar, getur skipulagt og forgangsraðað störfum sínum, veitt ráðgjöf og leiðbeiningar í samráði við yfirmann. Hann ber virðingu fyrir grundvallarreglum starfsumhverfis, býr yfir ábyrgð gagnvart starfi og starfsumhverfi og hæfni til að tjá skoðanir sínar og skýra verklag tengdu starfsumhverfi á ábyrgan, sjálfstæðan og skýran hátt.

Próf til starfsréttinda á þriðja þrepi
Nemandi með starfsréttindapróf býr yfir þekkingu, leikni og hæfni til að skipuleggja, velja og beita viðeigandi vinnuaðferðum á sjálfstæðan og ábyrgan hátt. Hann þekkir siðferðilega stöðu sína, getur metið eigin störf. Hann getur leiðbeint neytendum, viðskipavinum og samstarfsmönnum á vinnustað. Hann býr yfir hæfni til að geta tjáð sig um sérhæfða þekkingu sína á erlendu tungumáli sé þess krafist, getur skýrt verklag tengt starfsumhverfi á ábyrgan, gangrýninn og skýran hátt, getur nýtt þekkingu sína leikni og hæfni til að greina ný tækifæri og verið virkur og ábyrgur í lýðræðislegu samfélagi starfsgreinar sinnar.

Bóknámsbrautir til stúdentsprófs (þriðja þrep)
Nemandi með stúdentspróf af bóknámsbraut býr yfir almennri og sérhæfðri þekkingu, leikni og hæfni til að takast á við nám á háskólastigi. Sérhæfingin tengist fræðasviði á háskólastigi sem er grundvallað á bóknámi. Við sérhæfinguna hefur nemandi öðlast innsýn í starfsaðferðir viðkomandi fræðasamfélags og býr yfir hæfni til að verða ábyrgur og virkur einstaklingur í því lýðræðislega samfélagi. Hann getur nýtt sér norrænt og annað erlent tungumál við frekara nám og sér menntun sína í alþjóðlegu samhengi. Hann býr yfir hæfni til að geta tjáð sig um sérhæfða þekkingu sína, getur skýrt og rökstutt verklag á ábyrgan, gagnrýninn og skýran hátt. Hann býr yfir hæfni til að tengja þekkingu sína og leikni við tækni og vísindi, getur nýtt þekkingu sína, leikni og hæfni til að greina ný tækifæri og getur tekist á við frekara nám á háskólastigi.

Önnur lokapróf á þriðja þrepi
Nemandi sem lokið hefur námi sem fellur undir önnur próf á 3. hæfniþrepi býr yfir sérhæfðri þekkingu, leikni og hæfni innan starfsvettvangs, listgreinar eða sérþekkingar til að skipuleggja, velja og beita viðeigandi vinnuaðferðum á sjálfstæðan og ábyrgan hátt. Hann þekkir siðferðilega stöðu sína, getur metið eigin störf. Hann getur leiðbeint neytendum, viðskipavinum og samstarfsmönnum. Hann býr yfir hæfni til að geta tjáð sig um sérhæfða þekkingu sína á erlendu tungumáli sé þess krafist, getur skýrt verklag tengt starfsumhverfi, listgrein eða sérþekkingu á ábyrgan, gagrýninn og skýran hátt, getur nýtt þekkingu sína leikni og hæfni til að greina ný tækifæri og verið virkur og ábyrgur í lýðræðislegu samfélagi sérþekkingar sinnar.

Próf til starfsréttinda á fjórða þrepi
Starfsréttindapróf á 4. hæfniþrepi felur í sér löggilt réttindi. Nemandi sem hefur lokið þannig námi hefur öðlast aukna sérhæfingu og/eða útvíkkað sérhæfingu sína t.d. í tengslum við stjórnun, leiðsögn, þróun eða nýsköpun.

Viðbótarnám við framhaldsskóla (fjórða þrep)
Nemandi sem lokið hefur viðbótarnámi við framhaldsskóla hefur öðlast aukna sérhæfingu innan starfsnáms, listnáms eða annarar sérhæfingar og/eða útvíkkað sérhæfingu sína t.d. í tengslum við stjórnun, leiðsögn, þróun eða nýsköpun.

Aðrar brautir til stúdentsprófs (þriðja þrep)
Nemandi með stúdentspróf af öðrum brautum en bóknámsbrautum býr yfir almennri og sérhæfðri þekkingu, leikni og hæfni til að takast á við nám á háskólastigi. Sérhæfingin tengist fræðasviði á háskólastigi sem er grundvallað á starfsnámi eða listnámi. Við sérhæfinguna hefur nemandi öðlast innsýn í starfsaðferðir viðkomandi fræðasamfélags og býr yfir hæfni til að verða ábyrgur og virkur einstaklingur í því lýðræðislega samfélagi. Hann getur nýtt sér norrænt tungumál og eftir atvikum grunnþekkingu í þriðja tungumáli, samfélagsgreinum eða raungreinum við frekara nám og sér menntun sína í alþjóðlegu samhengi. Hann býr yfir hæfni til að geta tjáð sig um sérhæfða þekkingu sína, getur skýrt og rökstutt verklag á ábyrgan, gagnrýninn og skýran hátt. Hann býr yfir hæfni til að tengja þekkingu sína og leikni við tækni og vísindi, getur nýtt þekkingu sína, leikni og hæfni til að greina ný tækifæri og getur tekist á við frekara nám á háskólastigi.

Nám fyrir nemendur með sértæka námsörðugleika (fyrsta þrep)
Nám fyrir nemendur með sértæka námsörðugleika miðar að því að undirbúa nemendur undir líf fullorðinna með því að veita þeim verklega þjálfun á almennum eða vernduðum vinnustöðum og þátttöku í tómstundastarfi sem í boði er og hentar áhugasviði hvers og eins. Miðað er að því að auka færni nemenda til sjálfstæðrar búsetu, atvinnuþátttöku á almennum vinnumarkaði ef við verður komið og að njóta þeirra lífsgæða sem felast í virkri þátttöku í félagslífi og tómstundastarfi á eigin forsendum.

Framhaldsskólapróf á fyrsta þrepi
Nemandi með framhaldsskólapróf á 1. hæfniþrepi hefur unnið að því að öðlast hæfni í að tjá hugsanir sínar og tilfinningar í rökréttu samhengi, öðlast skýra sjálfsmynd og gera sér grein fyrir hvernig hann getur hagnýtt sterkar hliðar sínar á skapandi hátt. Hann hefur unnið að því að taka ábyrga afstöðu til eigin velferðar, tileinka sér jákvætt viðhorf til náms og að verða virkur og ábyrgur borgari í lýðræðislegu nær- og fjærsamfélagi. Hann hefur einnig unnið að því að öðlast hæfni til að tengja þekkingu sína og leikni við daglegt líf, tækni og vísindi.

Það fyrsta sem þarf að gera þegar byrjað er að setja inn námsbraut í námskrárgrunn er að velja tegund námsleiðar. Allar brautir hafa námslok á ákveðnu þrepi sem tengist námsleið. Undir hverri námsleið eru námslok. Námslok er hugtak sem stendur fyrir t.d. stúdent, húsasmiður, framhaldsskólapróf og marg fleira. Hver námsleið og þar með námslok hafa ákveðið hæfniþrep frá 1 til 3, og 4 í stöku tilfellum þegar nám er komið að mörkum háskóla.

Lokað er á athugasemdir.